Færsluflokkur: Bloggar

Kosningaúrslit 2006 og 2010

Þá liggja kosningaúrslitin 2010 fyrir - litlar breytingar eru á niðurstöðu. D og A nú Sjálfstæðismenn og óháðir sjálfstæðismenn með 4 menn kjörna og K listi Bæjarmálafélagsins með 3 menn kjörna eins og í kosningunum 2006. Eftirfarandi íbúar voru kosnir í bæjarstjórn:

1. D - Elías Jónatansson
2. K - Ketill Elíasson
3. D - Anna Guðrún Edvardsdóttir
4. D - María Elísabet Jakobsdóttir
5. K - Jóhann Hannibalsson
6. D - Baldur Smári Einarsson
7. K - Ylfa Mist Helgadóttir

Við í Bæjarmálafélaginu erum stolt að stefnuskránni sem við lögðum fram og þeim gildum sem við stöndum fyrir. Hjá okkur gátu allir bæjarbúar boðið sig fram og allir bæjarbúar gátu kosið um röðun framboðslista. Þar var ekki forsjárhyggju fámennrar klíku til að dreifa sem réði skipan framboðslista.

Bæjarmálafélagið vill þakka öllum þeim sem lögðu kosningaundirbúningnum lið og íbúum fyrir kosningaþátttöku þeirra. Kosningrétturinn er mikilvæg lýðræðisleg réttindi og ábyrgð okkar kjósanda sú að kynna okkur stefnumál og taka afstöðu til málefna.

Úrslit kosninga 2006 og 2010 var eftirfarandi:

2006
 A – Afl til áhrifa = 111 atkvæði (1 fulltrúi)

D – Sjálfstæðisflokkur = 210 atkvæði (3 fulltrúar)

K – Bæjarmálafélag Bolungarvíkur = 232 atkvæði (3 fulltrúar)

A og D listi fengu samanlagt 321 atkvæði 2006 en fá núna 291 atkvæði = 30 atkvæðum minna.

K listinn fékk 232 atkvæði í síðustu kosningum en fær núna 189 atkvæði = 43 atkvæðum minna.

2006 kusu 553 einstaklingar, auðir og ógildir seðlar voru 17.

Í kosningunum núna kusu 480 einstaklingar (en auðir og ógildir voru 35) 

2006 munaði 89 atkvæðum á K lista og A og D samanlagt, en núna munar 102 atkvæðum. Sameiginlegt framboð A og D í þessum kosningum 2010 jók því atkvæðamun um 13 atkvæði. En mun færri kusu og auðir og ógildir seðlar fleiri.

Það er ekki mikill munur á kosningaúrslitunum í ljósi þess hve áróðursmaskína mótframbjóðenda var sett í gang af miklu afli. Vikari og BB voru eins og málpípa þeirra með opnugreinum og forsíðufréttum, sáð var út gróusögun, maður sendur á mann til að reyna að stilla fólki upp við vegg og þingmaðurinn kallaður heim til aðstoðar. Klifað á sama söngnum, fjárhagserfiðleikar bæjarins til margra ára voru heimfærðir upp á 18 mánaða samstarf A og K lista og stöðugar árásir á fyrri oddvita K lista.

Það er kominn tími til að menn vakni til vitundar um það hvað er að gerast í íslensku samfélagi. Svona afbökun á staðreyndum er það sem hefur farið með íslenskt samfélag á þann stað sem það er á í dag. 

En niðurstaða er fengin og við hana verður að una. Vonandi mun þó eiga sér stað hugarfarsbreyting þó hægt verði. Bæjarfulltrúar K- lista mun gera það sem í þeirra valdi stendur til að veita aðhald, ljá máls á framfaramálum og styðja það sem gott er til að gera bæjinn byggilegri í samstarfi við alla bæjarbúa.


KOSNINGAKAFFI.

Um leið og við óskum Bolvíkingum GLEÐILEGS KOSNINGADAGS viljum við ítreka að boðið er upp á kaffi og meðlæti á Höfðastígnum í dag frá kl. 14.00 - 18.00. 

ALLIR VELKOMNIR!


Framboðsræða á sameiginlegum fundi.

 

 

Fundarstjóri

Góðir samborgarar

 

Á laugardaginn munum við kjósa um hvernig þjóðfélag við viljum byggja upp eftir það efnahagshrun sem að við urðum fyrir.

Viljum við endurreisa þessa brjálæðislegu áherslu á peninga og að stærra sé betra, meira hraði og meira stress, sem að verið hefur stefnan síðustu 20 ár, eða viljum við einstaklingurinn og fjölskyldan sé sett í fyrsta sæti og að þjóðfélagið taki mið af þörfum einstaklinganna sem það byggja.

Við getum haft áhrif í öllum kosningum sem að við tökum þátt í, líka bæjarstjórnakosningum, við sendum skilaboð til samborgaranna með vali okkar.

Viljum við félagshyggju eða peningahyggju?

 

Á næsta kjörtímabili verða nokkur stór mál sett í ákveðin farveg til framtíðar.

 

Þar er fyrst að nefna læknisþjónustu hér í bæ, það verður að tryggja að hér verði búsettur læknir sem að mun starfa á heilsugæslustöðinni, ásamt því fólki sem að eftir er þar.

 

Á árinu 2011 munu málefni öryrkja færast frá ríkinu til sveitarfélaga, þessum málaflokki hefur verið sinnt mjög vel af Svæðismiðlun fatlaðra á Vestfjörðum, og kannski þess vegna hefur nú þegar verið viðruð sú hugmynd að stofna byggðasamlag um verkefnið, Bæjarmálafélagið tekur undir þá hugmynd  og mun leggja til að stofnaður verði starfshópur til að vinna að undirbúningi þessarar  yfirfærslu, við leggjum líka áherslu á að boðið verði upp á skammtímavistun í Bolungarvík.

 

Stefnt er að því að málefni aldraðra verði flutt til sveitarfélaga árið 2013 það er nauðsynlegt að byrja strax að undirbúa þann flutning, og passa upp á að nægir fjármunir fylgi verkefninu, til að þau mistök sem gerð voru þegar að Grunnskólinn var færður endurtaki sig ekki.

 

Bygging þjónustuíbúða fyrir aldraða er orðin mjög brýnt verkefni, við erum að eldast og staðan hjá mörgum er þannig að þeir búa í allt of stóru húsnæði, en á sama tíma vantar húsnæði fyrir barnafólk.  Við verðum á einhvern hátt að koma hringnum í gang aftur, það er að byrja í litlu, stækka svo við sig þegar börnin koma og minnka svo aftur húsnæðið þegar að börnin eru flutt að heiman.  Bæjarmálafélagið mun reyna allt til að fá ríkið til að koma að þessu verkefni, þetta verkefni tók kipp fyrir 7-8 árum þegar að Elsa B. Friðfinnsdóttir var fyrir nefnd á vegum ríkisins, en það kom upp einhver misklíð og Ísfirðingar vildu að byggt yrði þar, þá var verkefnið sett í frost og lítið hefur gerst síðan.

Valdimar Lúðvík hefur þó verið með hugmyndir um byggingu við hvíta húsið, ég hef ekki séð þessar hugmyndir en bæjarmálafélagið mun styðja allar raunhæfar leiðir í þessum málum.

 

Sorpmál verða líklega fyrirferðamikil á næstunni þar sem mikil umræða er um að sorpbrennslan Funi sé í raun ónýt og að ekki svari kostnaði að endurbyggja hana. Það verður vonandi hægt að fara í samstarf með nágrannasveitafélögunum um hagkvæma lausn á sorpmálum. Þar viljum við líta til Staðardagskrár 21.   Það verður örugglega horft á aukna flokkun og endurvinnslu á sorpi í meira mæli en nú er gert. Moltu úr lífrænu heimilissorpi og meltu eða jafnvel áburð úr fiskúrgangi, en það er gamalt vandamál sem verður að fara að taka á, það gengur ekki að vera að ala vargfugl við vegginn á matvælaverksmiðju sem að framleiðir tilbúinn mat. Það bíður hættunni heim og bæjarfélagið hlýtur að bera einhverja ábyrgð. Það eru líka komin fram eituráhrif frá slóginu sem að liggur á botninum í höfninni það hef ég sjálfur séð á eldisfiskinum sem að ég geymi stundum í smá tíma við endann á brjótnum.

 

Það eru mörg verkefnin sem að þarf að leysa og þannig verður það alltaf en tækifærin eru líka víða og þau skulum við nýta.

 

Góðir bæjarbúar.

Á laugardaginn sendum við skilaboð út í allt samfélagið, viljum við setja fjölskylduna í fyrirrúm og lifa í sátt við náttúruna eða erum við tilbúin til að fara aðra rússibanareið á eftir peningunum.

 

Setjum X við K.  

 

Ketill Elíasson.


Hvað ætlar þú að kjósa?

l_image4bffcda1ee9bb 

Kosningabaráttan hefur að miklu leyti snúist um hugtakið "ábyrg fjármálastjórnun." Við ákváðum í byrjun samstarfs okkar, við sem skipum K-listann, að fela fólkinu í bænum alfarið að meta það hvort það fráfarandi bæjarfulltrúar okkar hefðu í raun borið alla þá ábyrgð á erfiðri fjárhagsstöðu bæjarins eftir tæplega hálft kjörtímabil, sem í veðri hefur verið látið vaka. Við sjálf vitum betur. Og fögnuðum því þegar þessir sömu fráfarandi bæjarfulltrúar sendu öllum heimilum í bænum bréf sem útskýrði hvað í raun gekk á.

 En við erum, að hluta til nýtt fólk og okkur er treystandi.

Exelskjöl og skipurit eru mér óþekkt stærð. Og það er líka í góðu lagi. Vegna þess að með mér eru menn eins og t.a.m. Ketill Elíasson sem hefur rekið sitt fyrirtæki farsællega árum saman og það með mjög miklum ágætum. Arnþór Jónsson, sem hefur sýnt að hann er maður sem ekki gefst upp heldur lítur á áföll sem merki um nýtt tækifæri til þess að skapa nýjan grundvöll. Þar fer maður sem ekki básúnar sína sigra, þó margir séu og meiri en okkar margra.  OG HANN kann á exelinn! :) Jóhann Hannibalsson. Stöðuglyndur og traustur maður með hjartað á réttum stað.

Við sem skipum efstu fjögur sæti lista Bæjarmálafélagsins, erum öll jafn ólík og dagur og nótt.  En við höfum komist að því undanfarið að við vinnum vel saman og erum hópur þar sem hvert okkar bætir annað upp. Fjölbreytileiki okkar er helsti styrkleikinn. Og við höfum öll sömu markmið; að skapa öllum Bolvíkingum þá umgjörð sem við þurfum hér til þess að byggð hér megi blómgast og dafna. Ekki með sérstaka áherslu á "eldri borgara," "öryrkja," "barnafólk." Nei, heldur alla Bolvíkinga! Svo einfalt er það. Fólk er ekki dregið í dilka. Allir eiga sama rétt, allir eiga kröfu um að lifa við félagslegt öryggi og með reisn.

Nú er þessi lesning mín að verða ansi hreint löng og kannski margir hættir að lesa.

 En það er tvennt sem mig langar þó að tæpa á. Fyrir fjórum árum gat fólk innan Sjálfstæðisflokks ekki unnið saman.  Þar klauf sig einn út, stofnaði framboð með öðru ágætisfólki. Einu og hálfu ári síðar gekk sami frambjóðandi í eina sæng með sínum fyrri félögum undir því yfirskyni að "umsvif Soffíu Vagnsdóttur væru orðin of mikil." Það var ekki fyrr en mun síðar, sem fjármálin urðu helsta ástæða stjórnarslitanna. Enda hafði hugmyndafræðin um umsvifin ekki fallið í góðan jarðveg og margir, þar á meðal frambjóðendur,  sögðu sig af téðum A-lista. Oddviti A-listans býður sig nú fram í 2. sætið, næst á eftir Elíasi Jónatanssyni, manninum sem hún gat ekki hugsað sér að vinna með fyrir fjórum árum.  Ég ræði um annars þá vel gefnu konu, Önnu Guðrúnu Edvardsdóttur. Konuna sem rýndi svo skemtilega í stefnuskrá okkar sem þekkt er orðið. 

Mitt minni nær lengra en fjögur ár aftur í tímann. Nú er spurning; hversu langt aftur nær minni kjósenda?

Og þá að því síðara sem ég vildi tæpa á.Ketill Elíasson, maðurinn í okkar brú, oddviti K-listans. Hann er maður sem hefur, eins og ég sagði áðan, rekið farsælt fyrirtæki í áraraðir og er þar að auki frumkvöðull. Það skal því enginn halda því fram, að Katli Elíassyni sé ekki treystandi fyrir peningum eða rekstri.  Hann hefur sýnt að svo er. Því held ég að með Ketil í brúnni, sé Bolvíkingum óhætt að treysta K-listanum fyrir „ábyrgri fjármálastjórn.“

En Ketill er ekki bara farsæll fyrirtækjarekandi. Hann er félagshyggjumaður. Réttsýnn og ber hag bæjarins fyrir brjósti. Hann er gagnrýninn og hann er sanngjarn. Umfram allt, hann er heiðarlegur. Þetta voru helstu ástæður þess að ég setti Ketil í 1. Sæti í forvali Bæjarmálafélagsins. Af því að ég treysti honum og hef mikið álit á honum.

Bolvíkingar. Þegar þið gangið til kjörklefa á morgun, bið ég ykkur að íhuga þessi orð mín. Hvar liggur traust ykkar? Hvernig sem allt fer, þá megið þið treysta því að við, frambjóðendur K-lista, munum vinna að heill og velferð bæjarfélagsins óháð því hvort það verður í meiri, -eða minnihluta. Við höfum verið lýðræðislega kjörin til að vinna fyrir ykkur.

Ylfa Mist Helgadóttir.

Höfundur skipar 3. sæti K-lista Bæjarmálafélags Bolungarvíkur.


Um hvað snúast þessar kosningar hér í Bolungarvík

 

 Johann_Hannibalsson_baejarfulltrui_i_Bolungarvik

 

Við upplifum mjög sérstaka tíma í íslensku samfélagi. Trú okkar og traust til stofnana og þeirra sem hafa haldið um stjórnartaumana hefur beðið hnekki. Sum okkar upplifa kvíða fyrir framtíðinni, kaupmáttarrýrnun hefur átt sér stað, sumir glíma við atvinnuleysi og enn aðrir eiga um sárt að binda vegna áfalla sem á þeim hafa dunið. Það hriktir í atvinnulífi og skuldir, þreyta, ótti og örvænting er baggi sem margir eiga erfitt með að burðast með en mæta þó oft skilningsleysi þeirra sem tögl og haldir hafa í samfélaginu.

Spunameistarar þeirra sem ásælast bæði völd og peninga hafa knúið áróðursmaskínu sína af stað í kosningaslag til að reyna að draga upp mynd af málum sem reynist sem mest má vera fjarri sannleikanum. Sumir velta sér upp úr titlatogi um það hvort að bæjarstjóri  sé framkvæmdastjóri eða ekki (stendur reyndar framkvæmdastjóri í sveitarstjórnarlögum) enda virðist sem að þeim sé helst umhugað um valdastóla og stöðutitla. Minna fer fyrir því sem raunverulega skiptir máli, lífsviðurværi og líðan fólks. Hvernig eigum við að efla atvinnulífið, hvernig getum við aukið þekkingu til að takast á við þessa breyttu tíma, hvernig getum við mætt þörfum þeirra sem erfiðast eiga eða eflt eldmóð íbúa svo að þeir bugist ekki af mótlætinu heldur snúi vörn í sókn. Hvar var dregið upp línuritið af líðan bæjarbúa og trú þeirra á framtíðina hér.

Þessar kosningar snúast um málefni og gildi. Um það hvort að við höfum fólk eða fé í fyrirrúmi. Hvort við erum tilbúin að taka til í samfélaginu. Opna stjórnsýsluna, auka íbúalýðræði við ákvarðanatöku í samfélaginu, tryggja gegnsæji og forgangsraða rétt með jafnrétti og kærleika að leiðarljósi. Þær  snúast líka um fólkið sem er tilbúið að vinna að því að stjórnun bæjarins einkennist af þeim gildum sem sett voru á þjóðfundi Íslendinga s.s. heiðarleika og réttlæti, ábyrgð, lýðræði og mannréttindum, kærleik, bjartsýni og jákvæðni, trausti, menntun og sjálfbærni  – en fyrst og fremst virðingu fyrir fólki, velvilja til samfélagsins og framtíð barnanna okkar.

Notið rétt ykkar til að kjósa og takið afstöðu með framtíðinni.

Ég hvet þig til að setja X við K á kjördag.

Jóhann Hannibalsson, frambjóðandi Bæjarmálafélags Bolungarvíkur

 


Bein útsending

frá sameiginlegum framboðsfundi K og D lista verður á netinu í kvöld. Upplýsingar um tengilinn má finna á www.bolungarvik.is

Fundurinn hefst klukkan átta í kvöld. Fimmtudagskvöld.


Nýtt fólk – sama hugmyndafræðin

sossa 

Nýtt fólk – sama hugmyndafræðinÁ laugardag kjósa Bolvíkingar til nýrrar bæjarstjórnar. Fyrir átta árum bauð Bæjarmálafélagið fram í fyrsta sinn og hlaut þá helming atkvæða til jafns við Sjálfstæðisflokkinn. Það var aðeins spurning um hvora hlið hundraðkallsins við fengjum hvoru megin meirihlutinn legðist. Við völdum fiskinn – töpuðum, - fengum lítils að njóta þrátt fyrir jafnteflið.

Fyrir fjórum árum var Bæjarmálafélagið sigurvegari kosninganna. Þrátt fyrir að samstarfsaðilinn, Afl til áhrifa, hafi beitt áhrifum sínum til að slíta tæplega tveggja ára samstarfi vegna óþægilegra umsvifa eins bæjarfulltrúa Bæjarmálafélagsins, heldur Bæjarmálafélagið áfram af fullum krafti, - nú sem aldrei fyrr. En það er komið nýtt fólk til forystu. Nýtt fólk – sama hugmyndafræðin. Fólkið sem aðhyllist sömu hugmyndafræði og lagt var upp með í upphafi og hún hefur ekkert breyst.

Enn einu sinni varðandi Félagsheimilið og ábyrga fjármálastjórn

Rétt er að minna á að bæjarfulltrúar, allir sem einn, samþykktu að fara í framkvæmdir á endurnýjun félagsheimilisins. Það að ekki hafi legið fyrir fjármögnun er hæpin fullyrðing. Allir höfðu samþykkt leiðina sem farin skyldi. Einn varamaður sjálfstæðismanna, Elín Jónsdóttir gerði tilraun til að gera athugasemdir og draga stuðning til baka, en fékk á sig harðorða bókun frá þáverandi meirihlutafulltrúa Önnu G. Edvardsdóttur á bæjarstjórnarfundi þann 27. mars 2008, aðeins tæpum mánuði fyrir stjórnarslit (21. apríl 2009) en hún hljóðaði svo:

„Meirihluti bæjarstjórnar Bolungarvíkur lýsir yfir furðu sinni vegna afstöðu Elínar Jónsdóttur til framkvæmda við Félagsheimili Bolungarvíkur, sérstaklega í ljósi þess að hún samþykkti framkvæmda- og fjármögnunaráætlun þessarar framkvæmdar”.

Bókun Elínar hljóðaði svo:

„Í ljósi þess hve fjármögnun verksins er kostnaðarsöm tel ég að eðlilegra hefði verið að staldra við og leita hagkvæmari leiða til fjármögnunarverksins”.

Öllum var ljós sú breytta staða sem varð á lánamörkuðum á fyrstu mánuðum ársins 2008. Það var annað hvort um að ræða að halda áfram verkinu, enda hafði þegar verið lagt út í töluverðan kostnað vegna undirbúnings, eða að hætta við og þá hefði Félagsheimilið hugsanlega verið jafnað við jörðu, enda ástand þess orðið mjög slæmt. Tekin var ákvörðun um að halda áfram en þess í stað ákveðið að fresta öðrum framkvæmdum á árinu 2008, s.s. stórum endurbótum á gatnakerfi bæjarins og kostnaðarsömu viðhaldi á eignum bæjarins s.s. grunnskóla og uppbyggingu í leikskóla. Allt saman hlutir sem þó voru og eru fyrir löngu orðnir tímabærir.

Þátttaka Sparisjóðs Bolungarvíkur

Það olli sömuleiðis undrun og miklum vonbrigðum að Sparisjóður Bolungarvíkur hafi ekki séð sér fært að bjóða betri lánskjör en raun bar vitni á slíku samfélagverkefni sem Félagsheimilið er. Á tveggja ára tímabili hafa verið greiddar um 30 milljónir króna í fjármagnskostnað til Sparisjóðsins vegna Félagsheimilislánsins. Hæst stóð yfirdrátturinn í 100.000.000,-. Gjöfin sem Sparisjóðurinn stærði sér af á góðu afmælisári hefur enn ekki borist og spurning um hvernig staðan er á þeim bænum til að standa við gefin loforð.

Bæjarmálafélagsfulltrúar eru fullfærir um ábyrgan rekstur

Ég leyfi mér að fullyrða að þeir sem taka við kyndli Bæjarmálafélagins nú eru fullfærir um að taka á sig ábyrgð á stjórn sveitarfélagsins. Sumir vanir ábyrgum rekstri í áraraðir – án áfalla. Og ekki bara í rekstrinum heldur ekki síst á atvinnu-, velferðar-, félags-, menningar- og fræðslusviði. Það er ekkert að óttast. Þrátt fyrir stöðugar tilraunir sumra um að gefa annað í skyn þá hljómar slíkt eins og hvellandi bjalla, það getur fólk séð, beri það sig eftir að leita þeirra upplýsinga sem að baki betri fjárhagsstöðu sveitarfélagins liggja.

Ég hvet því alla þá sem trúðu á hugmyndafræði Bæjarmálafélagsins í upphafi, þá sem bættust í hópinn fyrir fjórum árum og þá sem tóku eftir þeim viðsnúningi í daglegu lífi bæjarbúa, viðsnúningi í félags- og menningarlegu tilliti að ekki sé talað um jákvæða umfjöllun á landsvísu svo eftir var tekið, - ég hvet þá til að setja X við K á laugardaginn.


Bæjarmálafélagið sparaði kosningaglingrið og gaf bænum blómaker

 

 annað kerjanna.

Bæjarmálafélagið ákvað í upphafi kosningabaráttunnar að sleppa því að kaupa ýmislegt smálegt kynningarefni enda krepputímar sem kalla á ráðdeild og sparnað en nota þess í stað eitthvað af þvi sem sparaðist sem glatt gæti bæjarbúa. Fyrir valinu varð að kaupa tvö blómaker með blómum sem afhent voru bæjarstjóra með svohljóðandi gjafabréfi:

Gjafabréf til Bolungarvíkurbæjar

Tvö blómaker

til notkunar við sundlaug og félagsheimili

Við bæjarfulltrúar og frambjóðendur K-lista Bæjarmálafélags Bolungarvíkur tókum þá ákvörðun í upphafi kosningabaráttu okkar að eyða ekki fjármunum í ýmislegt smálegt kynningarefni en þess í stað að nota fjármunina til að gleðja bæjarbúa.

Okkur fannst viðeigandi að gera það með því að gefa bæjarbúum tvö blómaker með sumarblómum til að hafa við tvo þá helstu staði í samfélaginu þar sem við bæjarbúar komum saman, við sundlaugina og félagsheimilið. Það eru líka þeir tveir staðir sem við höfum lagt áherslu á að efla, því að það er mikilvægt að við höfum vettvang til að koma saman til samveru og samræðna og styrkja bæði líkama og sál.

Í samræðum verða til hugmyndir sem munu leiða okkur á vit nýrra tækifæra. Blómakerin eru úr gömlum bobbingum og eru táknræn fyrir að Bolungarvík byggir undirstöðu sína á sjávarútvegi, þau eru endurunnin en víða eru gamlir hlutir sem fengið geta nýja lífdaga með hugviti og verkkunnáttu íbúa en kerin eru unnin í vélsmiðjunni Mjölni, Bolungarvík.  Blómin minna okkur á sumarið framundan, því að á eftir vetri kemur alltaf sumar.

Vinnum saman að blómlegri byggð í Bolungarvík!

Bæjarmálafélag Bolungarvíkur

IMG_0545

 


Ylfa Mist Helgadóttir 3. sæti K- lista Bæjarmálafélagsins fær orðið:


Kristrún Hermannsdóttir frambjóðandi í 6. sæti á K - lista fær orðið:


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband