Nýtt fólk – sama hugmyndafræðin

sossa 

Nýtt fólk – sama hugmyndafræðinÁ laugardag kjósa Bolvíkingar til nýrrar bæjarstjórnar. Fyrir átta árum bauð Bæjarmálafélagið fram í fyrsta sinn og hlaut þá helming atkvæða til jafns við Sjálfstæðisflokkinn. Það var aðeins spurning um hvora hlið hundraðkallsins við fengjum hvoru megin meirihlutinn legðist. Við völdum fiskinn – töpuðum, - fengum lítils að njóta þrátt fyrir jafnteflið.

Fyrir fjórum árum var Bæjarmálafélagið sigurvegari kosninganna. Þrátt fyrir að samstarfsaðilinn, Afl til áhrifa, hafi beitt áhrifum sínum til að slíta tæplega tveggja ára samstarfi vegna óþægilegra umsvifa eins bæjarfulltrúa Bæjarmálafélagsins, heldur Bæjarmálafélagið áfram af fullum krafti, - nú sem aldrei fyrr. En það er komið nýtt fólk til forystu. Nýtt fólk – sama hugmyndafræðin. Fólkið sem aðhyllist sömu hugmyndafræði og lagt var upp með í upphafi og hún hefur ekkert breyst.

Enn einu sinni varðandi Félagsheimilið og ábyrga fjármálastjórn

Rétt er að minna á að bæjarfulltrúar, allir sem einn, samþykktu að fara í framkvæmdir á endurnýjun félagsheimilisins. Það að ekki hafi legið fyrir fjármögnun er hæpin fullyrðing. Allir höfðu samþykkt leiðina sem farin skyldi. Einn varamaður sjálfstæðismanna, Elín Jónsdóttir gerði tilraun til að gera athugasemdir og draga stuðning til baka, en fékk á sig harðorða bókun frá þáverandi meirihlutafulltrúa Önnu G. Edvardsdóttur á bæjarstjórnarfundi þann 27. mars 2008, aðeins tæpum mánuði fyrir stjórnarslit (21. apríl 2009) en hún hljóðaði svo:

„Meirihluti bæjarstjórnar Bolungarvíkur lýsir yfir furðu sinni vegna afstöðu Elínar Jónsdóttur til framkvæmda við Félagsheimili Bolungarvíkur, sérstaklega í ljósi þess að hún samþykkti framkvæmda- og fjármögnunaráætlun þessarar framkvæmdar”.

Bókun Elínar hljóðaði svo:

„Í ljósi þess hve fjármögnun verksins er kostnaðarsöm tel ég að eðlilegra hefði verið að staldra við og leita hagkvæmari leiða til fjármögnunarverksins”.

Öllum var ljós sú breytta staða sem varð á lánamörkuðum á fyrstu mánuðum ársins 2008. Það var annað hvort um að ræða að halda áfram verkinu, enda hafði þegar verið lagt út í töluverðan kostnað vegna undirbúnings, eða að hætta við og þá hefði Félagsheimilið hugsanlega verið jafnað við jörðu, enda ástand þess orðið mjög slæmt. Tekin var ákvörðun um að halda áfram en þess í stað ákveðið að fresta öðrum framkvæmdum á árinu 2008, s.s. stórum endurbótum á gatnakerfi bæjarins og kostnaðarsömu viðhaldi á eignum bæjarins s.s. grunnskóla og uppbyggingu í leikskóla. Allt saman hlutir sem þó voru og eru fyrir löngu orðnir tímabærir.

Þátttaka Sparisjóðs Bolungarvíkur

Það olli sömuleiðis undrun og miklum vonbrigðum að Sparisjóður Bolungarvíkur hafi ekki séð sér fært að bjóða betri lánskjör en raun bar vitni á slíku samfélagverkefni sem Félagsheimilið er. Á tveggja ára tímabili hafa verið greiddar um 30 milljónir króna í fjármagnskostnað til Sparisjóðsins vegna Félagsheimilislánsins. Hæst stóð yfirdrátturinn í 100.000.000,-. Gjöfin sem Sparisjóðurinn stærði sér af á góðu afmælisári hefur enn ekki borist og spurning um hvernig staðan er á þeim bænum til að standa við gefin loforð.

Bæjarmálafélagsfulltrúar eru fullfærir um ábyrgan rekstur

Ég leyfi mér að fullyrða að þeir sem taka við kyndli Bæjarmálafélagins nú eru fullfærir um að taka á sig ábyrgð á stjórn sveitarfélagsins. Sumir vanir ábyrgum rekstri í áraraðir – án áfalla. Og ekki bara í rekstrinum heldur ekki síst á atvinnu-, velferðar-, félags-, menningar- og fræðslusviði. Það er ekkert að óttast. Þrátt fyrir stöðugar tilraunir sumra um að gefa annað í skyn þá hljómar slíkt eins og hvellandi bjalla, það getur fólk séð, beri það sig eftir að leita þeirra upplýsinga sem að baki betri fjárhagsstöðu sveitarfélagins liggja.

Ég hvet því alla þá sem trúðu á hugmyndafræði Bæjarmálafélagsins í upphafi, þá sem bættust í hópinn fyrir fjórum árum og þá sem tóku eftir þeim viðsnúningi í daglegu lífi bæjarbúa, viðsnúningi í félags- og menningarlegu tilliti að ekki sé talað um jákvæða umfjöllun á landsvísu svo eftir var tekið, - ég hvet þá til að setja X við K á laugardaginn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband