Staðardagskrá 21 og matjurtagarðar í Bolungarvík

Eitt af því sem Bæjarmálafélagið leggur áherslu á er að Bolungarvíkurbær geri áætlun um Staðardagskrá 21.  Staðardagskrá 21 er áætlun um verkefni innan sveitarfélaga til að komast í sjálfbæra þróun á 21. öldinni. Sjálfbær þróun felur í sér að endurnýjanlegar auðlindir séu hagnýttar á þann máta að ekki sé gengið á höfustólinn og auðlindin haldi óskertu gildi sínu til frambúðar. Þetta felur einnig í sér að nýting auðlindanna, stjórnun fjárfestinga, tækniþróun og breytingar á stjórnkerfum aðlagi sig bæði að þörfum nútímans og framtíðarinnar. Hugmyndin með Staðardagskrá 21 er sú að að samfélagið geri áætlun um þau verk sem vinna þarf í hverju sveitarfélagi um sig til að nálgast markmiðið um sjálfbæra þróun  þ.e.a.s. þróun sem tryggir komandi kynslóðum viðunandi lífsskilyrði. Áætlunin snýst ekki eingöngu um umhverfismál í venjulegum skilningi, heldur er henni ætlað að taka jafnframt tillit til efnahagslegra og félagslegra þátta s.s. að tryggja öryggi og frumþarfir íbúa, t.d. með því að vera sjálfbjarga um matvæli, tryggja jafnræði íbúa, þátttöku þeirra í mótun samfélagins o.fl. en einnig að þróa markaði og stefna á hámörkun arðsemi og aukningu hagvaxtar með nýtingu án þess þó að það gangi á náttúrugæði til framtíðar Segja má að Staðardagskrá byrji inn á heimilum íbúa t.d. með því að endurnýta það sem hægt er, sóa ekki orku að óþarfa, fara sparlega með hreinsiefni og hagnýta þær auðlindir og gæði sem náttúran býr yfir svo við getum verið sjálfum okkur nóg eða leiða til betri nýtingar á gæðum og bæta lífskjör. En Staðardagskrá leggur líka ábyrgð á sveitarfélagið til að móta áætlanir og lausnir m.a. á úrgangsvanda samfélagsins á vistvænan hátt, skapa aðstöðu fyrir íbúa til að geta nýtt það sem í samfélaginu er til að bæta kjör, skapa atvinnu og auka hagvöxt með hliðsjóð af sjálfbærni. Eitt af því sem við getum gert strax er að skapa aðstöðu fyrir íbúa til að vinna lífrænan úrgang til moltugerðar og til að rækta eigin matjurtir með því að útbúa matjurtagarða til ræktunar sem standi þeim til boða sem vilja og leggja þeim til þau verkfæri sem nauðsynleg eru. Slíkt mætti einnig tengja við skólagarða og Vinnuskóla. Þannig getum við auðveldað íbúum matvælaöflun sem er mikilvægt í ljósi þeirrar gífurlegu kaupmáttarrýrnunar sem heimilin hafa orðið fyrir, nýtt hreinleika landsins og jarðargróðurs betur og stuðlað að varðveislu þekkingar á ræktun, sparað gjaldeyri, samnýtt verkfæri og sparað eldsneyti við að koma matvælum á milli staða. Síðast en ekki síst er líka gaman að koma saman, kynslóð með kynslóð við að yrkja landið, skiptast á þekkingu og hjálpast að við að tryggja uppskeru í hús og njóta svo ávaxtanna af samveru og útiveru sumarsins.Jóhann Hannibalson og Sigurður Guðmundur Sverrisson er frambjóðendur K- lista Bæjarmálafélags Bolungarvíkur.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband