19.5.2010 | 00:26
Hundraðdaganefndin...
Í dag (reyndar í gær, þegar þetta er ritað eftir miðnætti) fór ég í Ráðhúsið í Bolungarvík til að kynna mér niðurstöðu nefndar sem sett var á laggirnar til að vega og meta kosti sameiningu sveitarfélaganna hér á norðanverðum Vestfjörðum, Bolungarvíkur, Ísafjarðarbæjar og Súðavíkur. Í stuttu máli, fannst mér ekkert annað hafa komið útúr þessari hugmyndavinnu í raun, annað en stór greiðsla til ráðgjafafyrirtækis í Reykjavík. Skýrslan var ekki illa unnin, alls ekki. En ég gat alls ekki komið auga á að minn heimabær myndi hagnast á sameiningunni. Óskir íbúa um sitt nærumhverfi hljóta að vega þungt á metum og ég hef ennþá ekki talað við þann Bolvíking sem vill sameiningu.
Ég bar fram eina spurningu eftir skýrslukynninguna. Hún var svohljóðandi; "Það kom fram snemma í kynningunni að reynt yrði leitast við að treysta fjölbreytni atvinnu í byggðarlögum í kjölfar þess að störf yrðu færð til eða lögð niður. Ísafjarðarbær hefur þessa reynslu eftir að hafa sameinast Flateyri, Suðureyri og Þingeyri. Hvernig gekk það upp í því tilfelli? Var reynt að stuðla að atvinnufjölbreytni í hinum smáu bæjum eftir þá sameiningu? Og tókst það?"
Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar svaraði því til að engin störf hefðu horfið úr minni bæjunum á vegum stjórnsýslunnar nema störf sveitarstjóranna sjálfra. Nú er það hlutur sem ég þarf að kynna mér ítarlegar, sérstaklega í ljósi þess að síðar kom sú spurning úr sal hvort að bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefði ekki ítrekað reynt að flytja Grunnskóla Flateyrar til Ísafjarðar og hann svarði því til að "það hafi einu sinni komið til tals en ekki hafi verið farið útí þær framkvæmdir vegna þess að það hafi m.a. mætt miklum mótbyr foreldra." (ég tek fram að þetta er ekki orðrétt, hvorki spurning mín, né svar bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, en þetta er engu að síður innihald hvors tveggja.)
Nú veit ég að þessi hugmyndavinna um lokun Grunnskólans á Flateyri og flutning skólabarna þaðan og yfir á Ísafjörð hefur mun oftar komið upp. A.m.k fjórum sinnum. Svar bæjarstjóra var því ekki allskostar rétt. A.m.k skildi ég það alls ekki þannig. Í ljósi þess held ég að það sé þarfaverk að kynna sér einnig hvort frekari skerðing hafi orðið á opinberum störfum í smærri byggðakjörnum Ísafjarðarbæjar eftir sameiningu fyrrgreindra sveitarfélaga.
Nú er ég hlynnt samvinnu þessara smáu sveitafélaga á norðanverðum Vestfjörðum, svo lengi sem hún bætir þjónustu og tryggir atvinnuöryggi íbúanna. En ég er engan veginn tilbúin til að ganga að lögformlegri sameiningu Bolungarvíkurkaupstaðar við Ísafjarðarbæ. Ég trúi því að við myndum alltaf koma til með að bera það skarðan hlut frá borð,i að hagræðingin sem kynnt var í dag uppá 24 m.kr. á ársgrundvelli, borgi sig fyrir framtíð íbúanna hér í Bolungarvík.
Ég vil að Bolungarvík verði áfram sjálfstætt sveitarfélag en að við getum samt unnið að uppbyggingu þjónustu í öllum bæjarfélögunum hér á Vestfjörðum með samvinnu! Ekki sameiningu!
Bestu kveðjur,
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.