Um hvað snúast þessar kosningar hér í Bolungarvík

 

 Johann_Hannibalsson_baejarfulltrui_i_Bolungarvik

 

Við upplifum mjög sérstaka tíma í íslensku samfélagi. Trú okkar og traust til stofnana og þeirra sem hafa haldið um stjórnartaumana hefur beðið hnekki. Sum okkar upplifa kvíða fyrir framtíðinni, kaupmáttarrýrnun hefur átt sér stað, sumir glíma við atvinnuleysi og enn aðrir eiga um sárt að binda vegna áfalla sem á þeim hafa dunið. Það hriktir í atvinnulífi og skuldir, þreyta, ótti og örvænting er baggi sem margir eiga erfitt með að burðast með en mæta þó oft skilningsleysi þeirra sem tögl og haldir hafa í samfélaginu.

Spunameistarar þeirra sem ásælast bæði völd og peninga hafa knúið áróðursmaskínu sína af stað í kosningaslag til að reyna að draga upp mynd af málum sem reynist sem mest má vera fjarri sannleikanum. Sumir velta sér upp úr titlatogi um það hvort að bæjarstjóri  sé framkvæmdastjóri eða ekki (stendur reyndar framkvæmdastjóri í sveitarstjórnarlögum) enda virðist sem að þeim sé helst umhugað um valdastóla og stöðutitla. Minna fer fyrir því sem raunverulega skiptir máli, lífsviðurværi og líðan fólks. Hvernig eigum við að efla atvinnulífið, hvernig getum við aukið þekkingu til að takast á við þessa breyttu tíma, hvernig getum við mætt þörfum þeirra sem erfiðast eiga eða eflt eldmóð íbúa svo að þeir bugist ekki af mótlætinu heldur snúi vörn í sókn. Hvar var dregið upp línuritið af líðan bæjarbúa og trú þeirra á framtíðina hér.

Þessar kosningar snúast um málefni og gildi. Um það hvort að við höfum fólk eða fé í fyrirrúmi. Hvort við erum tilbúin að taka til í samfélaginu. Opna stjórnsýsluna, auka íbúalýðræði við ákvarðanatöku í samfélaginu, tryggja gegnsæji og forgangsraða rétt með jafnrétti og kærleika að leiðarljósi. Þær  snúast líka um fólkið sem er tilbúið að vinna að því að stjórnun bæjarins einkennist af þeim gildum sem sett voru á þjóðfundi Íslendinga s.s. heiðarleika og réttlæti, ábyrgð, lýðræði og mannréttindum, kærleik, bjartsýni og jákvæðni, trausti, menntun og sjálfbærni  – en fyrst og fremst virðingu fyrir fólki, velvilja til samfélagsins og framtíð barnanna okkar.

Notið rétt ykkar til að kjósa og takið afstöðu með framtíðinni.

Ég hvet þig til að setja X við K á kjördag.

Jóhann Hannibalsson, frambjóðandi Bæjarmálafélags Bolungarvíkur

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband