Atvinnumálin í forgang.

Joi 33Nú líður senn að því að ibúar Bolungarvíkur gangi að kjörborðinu og taki ákvörðum um hvað af tveimur framboðum þau kjósa til forystu í bæjarfélaginu. Sjálfstæðismenn klifa á því að í sveitarfélaginu þurfi að vera ábyrg fjármálastjórn og fara með staðlausar dylgjur um að 18 mánaða forysta K-lista Bæjarmálafélags Bolungarvíkur og A- lista Afls til áhrifa á síðasta kjörtímabili hafi farið með fjármál bæjarins á kaldan klaka. Látið ekki telja ykkur trú um aðra eins vitleysu. Grunnurinn að fjárhagserfiðleikum bæjarins er löng valdatíð Sjálfstæðisflokksins en sá flokkur hefur farið með meirihluta í bænum síðustu sex áratugi.

Á þeim tíma náðu menn að safna upp skuldum þrátt fyrir velmegunar ár í atvinnulífi og sölu á eignum bæjarbúa í arðsömum fyrirtækjum eins og Orkubúi Vestfjarða og velta menn því fyrir sér hvert þeir fjármunir hafi farið miðað við skuldastöðu sveitarfélagsins! Er kannski komið af því að fá rannsóknarnefnd til að fara ofan í saumana á þeim málum? Á þessum stutta valdatíma okkar óskuðum við eftir aðstoð og ráðleggingum eftirlitsnefndar sveitarfélaga til að leita úrræða til að taka á erfiðri skuldastöðu sveitarfélagins sem var afleiðing stjórnunar undanfarinna kjörtímabila og fengum reyndar hrós fyrir árangur í fjármálum frá nefndinni og það starf er að skila árangri nú með niðurfellingu skulda, auknu framlagi frá jöfnunarsjóði og reyndar áhrifa af auknum útsvarstekjum sem eru ekki síst að þakka þeim Bolvíkingum sem auðnaðist að semja um verktöku á þjónustu við erlenda starfsmenn í jarðgangnagerð Bolungarvíkurganga og tryggja þannig atvinnu og skatttekjur af dvöl þeirra í bænum. Bent er á að hafnar hafi verið framkvæmdir við sundlaugargarðinn og félagsheimilð í valdatíð okkar. Það er rétt og við erum stolt af því!

Þessir staðir hafa veitt okkur og munu áfram veita okkur innblástur og gleðistundir því að þetta eru samkomustaðir bæjarbúa til að hittast og eiga góðar stundir með samborgurunum, fjölskyldum og vinum. En heiðurinn eigum við þó ekki alveg ein því að ALLIR bæjarfulltrúar samþykktu að fara út í framkvæmdir við félagsheimilið og núverandi bæjarstjóri tók meira að segja að sér formennsku byggingarnefndar. Í þeirri formennsku fólst líka að leita leiða til að tryggja utanaðkomandi, þolinmótt fjármagn til verksins. Ef Bolvíkingar eiga að vilja að búa og starfa í sveitarfélaginu þarf að tryggja íbúum aðstöðu eins og kostur er í samræmi við óskir þeirra og vilja og ég hygg að við allir bæjarbúar séum sammála um að sinna þurfi þessum félagslegu þáttum enda þurfum við á því að halda að koma og gleðjast saman ekki síst núna þegar harðnar á dalnum í íslensku samfélagi. Það er ágætt að rifja upp heilræði hávamála í þessu sambandi um nauðsyn þess að koma og hlæja saman en fals og lygi fær sá í bakið aftur er hana stundar:

Vin sínum
skal maður vinur vera
og gjalda gjöf við gjöf.
Hlátur við hlátri
skyli höldar taka,
en lausung við lygi.


Það gleymist þó í allri umræðunni um fjármálin að grunnurinn að því að hafa tekjur til að framkvæma og greiða niður skuldir er að hafa fjölbreytt og stöðugt atvinnulíf. Því höfum við því miður ekki átt til að dreifa og höfum þurft að upplifa hvert áfallið af öðru á undanförnum árum með þeirri sársaukafulllu reynslu sem íbúar verða fyrir með atvinnumissi. Við í Bæjarmálafélaginu viljum leita allra leiða til að efla fjölbreytni í atvinnulífi , því að það gengur ekki að setja öll eggin í sömu körfuna. Við viljum nýta stoðkerfi atvinnulífs miklu meira en nú er gert, setja á laggirnar frumkvöðlasetur með aðstöðu fyrir einstaklinga með viðskiptahugmyndir, ráða atvinnu- og markaðsfulltrúa til bæjarins, endurvekja atvinnumálaráð, hvetja til nýsköpunar í sjávarútvegi og öðrum atvinnugreinum, efla samstarf fyrirtækja og skilgreina atvinnumál sem eitt aðalforgangsverkefni sveitarfélagsins á næsta kjörtímabili. Því aðeins með heilbrigðu, fjölbreyttu og stöðugu atvinnulífi getum við tryggt Bolvíkingum gott samfélag á komandi árum. Með samstilltu átaki getum við snúið vörn í sókn, sameinumst um að setja x við K á kjördag og kjósa þannig lýðræðisleg vinnubrögð, opna og gegnsæja stjórnsýslu og vilja og áræðni til að byggja upp heilbrigt og réttlátt samfélag.

Jóhann Hannibalsson, bæjarfulltrúi, skipar 2. sætið á framboðslista Bæjmálafélagsins K-lista í komandi sveitarstjórnarkosningum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband